Daníel Hafsteinsson og LifeTrack í samstarf
Það er okkur sannur heiður að tilkynna að hinn öflugi knattspyrnumaður, Daníel Hafsteinsson, hefur gert samstarfssamning við LifeTrack fyrir komandi keppnistímabil í Bestu deildinni. Daníel hefur notað LifeTrack smáforritið undanfarna mánuði og mun halda því áfram í sínu undirbúnings- og æfingaferli.
Daníel sem er fæddur árið 1999, gekk nýverið til liðs við hið feikilega sterka lið Víkinga sem snéru nýlega heim eftir ævintýralegt einvígi í Sambandsdeildinni gegn Panathinaikos frá Grikklandi. Daníel sem er uppalinn Akureyringur hefur spilað með KA og FH á Íslandi auk þess að spila með Helsingborg í Svíþjóð. Hann hefur einnig verið hluti af öllum yngri landsliðum Íslands og á að baki einn A-landsleik.
„Það hefur verið afar ánægjulegt að fylgjast með Daníel á sinni vegferð síðustu mánuðina og sjá hann nýta sér LifeTrack appið og þannig skilja sína orkuþörf. Hann hefur staðið sig mjög vel og var hann svo sannarlega tilbúinn að taka þetta skref og bæta LifeTrack í sitt vopnabúr. Í nútíma knattspyrnu er samkeppnin mikil og sífellt meiri áhersla er lögð á greiningar ýmissa gagna, eins og hlaupatölum, tíðni og lengd styttri spretta sem og púlsmælingar. Hins vegar er oft vanmetið hvaða þættir hafa áhrif á þessar breytur frá degi til dags. Þar skipta næring og svefn gríðarlega miklu máli, en kannski er enn lögð ótrúlega lítil áhersla á þessa þætti miðað við hversu mikil áhrif þeir hafa á frammistöðu leikmanna á vellinum.” Segir Ingi Torfi Sverrisson, annar stofnanda LifeTrack.
Atvinnumennska í knattspyrnu krefst gífurlegrar orku, sérstaklega á krefjandi og löngu undirbúningstímabili. Með því að tryggja að afreksfólk fái nægjanlega næringu og á réttum tíma er hægt að bæta frammistöðu og hraða endurheimt á ótrúlega skömmum tíma. Þetta skiptir enn meira máli fyrir leikmenn sem hafa verið lengi í bransanum og þurfa að halda sér í toppformi ár eftir ár. Þó Daníel sé enn ungur, hefur hann þegar safnað að sér dýrmætri reynslu og á að baki langan og farsælan feril, bæði hér heima og erlendis.
„Ég hef verið í fótbolta nánast allt mitt líf og ég taldi mig hafa mataræðið í ágætis horfi. Það er magnað að sjá hversu mikil áhrif það hefur haft að taka þetta skref og tileinka sér þessa þekkingu til fulls. Það sem ég hef áttað mig á eftir að hafa notað LifeTrack er að þetta snýst í raun einfaldlega um vísindi - og þau eru alls ekki eins flókin og sumir halda. Til þess að hámarka orku og hraða endurheimt er nauðsynlegt að borða vel, sérstaklega kolvetni og prótein. Auk þess að tryggja nægjanlega næringu yfir daginn skiptir miklu máli að fá rétt magn í réttum hlutföllum bæði fyrir og eftir æfingar og leiki. Það er algjör game changer fyrir mig,” segir Daníel Hafsteinsson
Við erum stolt af þessu samstarfi og afar spennt að sjá Daníel taka næstu skref í einu sterkasta liði landsins.