Fyrsti LifeTrack vottaði veitingastaður landsins

Veitingastaðir Saffran eru þeir fyrstu til að hljóta LifeTrack vottun á íslandi, viðurkenningu sem er veitt veitingastöðum sem bjóða upp á hollan og næringarríkan mat sem styður við heilbrigðan lífsstíl.
Til þess að hljóta vottunina þurfa veitingastaðir að uppfylla ákveðin viðmið sem LifeTrack setur fram. Þar á meðal er að bjóða upp á rétti sem eru ríkir af trefjum og próteini, veita skýrar upplýsingar um næringargildi – svo sem orku, prótein, fitu og kolvetni – og tryggja að réttir séu skráðir í LifeTrack smáforritið. Auk þess þarf að vera samræmi í skammtastærðum. Með því geta notendur bætt réttunum beint í næringardagbók sína með einum smelli í gegnum Lifetrack smáforritið.
LifeTrack vottunin auðveldar neytendum að taka upplýstar ákvarðanir um matarval og styður veitingastaði í því að bjóða upp á hollari valkosti sem stuðla að betri lífsstíl. Hún er hluti af heilsubyltingu LifeTrack, sem vinnur að því að bæta lífsstíl fólks á Íslandi sem og næringarlæsi.
Fyrirtækið hefur nýlega sett á markað smáforrit sem styður fólk í að efla grunnstoðir heilsu – hreyfingu, næringu, svefn og andlega vellíðan.
“Fólk hefur oft ekki hugmynd um hvað það er að láta ofan í sig, enda eru næringarupplýsingar oftast óaðgengilegar eða óljósar. Það er mikilvægt að veitingastaðir bjóði upp á hollari valkosti og veiti skýrar og réttar upplýsingar um næringargildi máltíða. Þegar framboðið verður hollara, hefur það jákvæð keðjuverkandi áhrif á neytendur og hvetur þá til að taka betri ákvarðanir um mataræði sitt. Við erum stolt af því að Saffran sé fyrst til að hljóta LifeTrack vottunina enda hafa þau lengi lagt áherslu á hollari kosti og eiga stóran hóp viðskiptavina sem er meðvitaður um heilbrigðan lífsstíl” segir Linda Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastýra LifeTrack.
“Það er okkur sannur heiður að vera fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi að hljóta þennan heiður og staðfestir að sú vinna sem við höfum lagt í okkar starf í áraraðir er að skila sér. Við leggjum mikið upp úr því að velja gott og ferskt hráefni. Við höfum verið að vinna með mögnuðu fólki við það að setja saman holla og bragðgóða rétti. Með LifeTrack vottuninni verður fólki auðveldara að velja mat sem styður heilsumarkmið þeirra, án þess að þurfa að fórna bragðgæðum eða gæðum hráefna" segir Nana Þorgeirsdóttir rekstrarstjóri Saffran.
LifeTrack smáforritið, sem var unnið í samstarfi við næringa- og íþróttafræðinga, er aðgengilegt í Apple Store og Google Play undir LifeTrack Iceland.