Handboltadeild Þórs í samstarf við LifeTrack
“Við ætlum að koma þessu liði upp á næsta level og samstarf okkar við LifeTrack er stór partur af því”, segir Halldór Örn Tryggvason þjálfari karlaliðs Þórs Akureyri í handknattleik.
Handknattleiksdeild Þórs Akureyri og LifeTrack hafa gert með sér samstarfssamning sem miðar að því að efla frammistöðu leikmanna. Markmið samstarfsins er að styðja við leikmenn Þórs á lokasprettinum í Grill 66 deildinni og á undirbúningstímabili næsta vetrar. Leikmenn munu nýta sér LifeTrack appið, sem leggur áherslu á næringu, hugarfar, svefn og hvatningu til að hámarka árangur sinn innan og utan vallar.
“Við höfum heyrt afar góða hluti af LifeTrack og teljum þetta vera verkfæri sem raunverulega hvetur leikmenn til að tileinka sér og skilja mikilvægi næringar. Hingað til hefur íþróttahreyfingin að mestu treyst á fyrirlestra og fræðslu en hér er komin lausn sem fær leikmenn til að halda enn betur utan um sína næringu. Við bindum vonir við að þetta skili okkur enn betri árangri. Þetta er næsta skref í þróuninni, og við bindum miklar vonir við að það skili okkur enn betri árangri,” bætir Halldór Örn við.
Næring og svefn spila lykilhlutverk í því að hámarka frammistöðu íþróttamanna, stuðla að hraðari endurheimt og viðhalda orkujafnvægi líkamans. Skortur á góðri næringu eða nægum svefni getur aukið hættu á meiðslum, dregið úr viðbragðsflýti og hindrað vöðvauppbyggingu.
„Það skiptir gríðarlega miklu máli að afreksíþróttafólk borði nægilega mikið og byggi upp góða rútínu í kringum æfingar og keppni. Þær bætingar sem við höfum séð hjá íþróttafólki sem tileinkar sér mataræði í takt við álag og markmið eru hreint ótrúlegar – og það á ekki bara við um unga íþróttamenn, heldur líka þá sem eru á seinni parti ferilsins. Að mínu mati hefur fátt jafn afgerandi áhrif á frammistöðu og rétt næring ásamt góðum svefni“, segir Ingi Torfi annar stofnenda LifeTrack.